Skýrsla stjórnar Teigs 2017-2018

Skýrsla stjórnar Teigs 2017-2018

Golfklúbburinn Teigur

Skýrsla stjórnar Teigs

starfstímabilið 1. nóvember 2017 til 1. apríl 2018

Aðlögun að umfangsmeira starfi – Undanfarin ár hefur stjórn Teigs á hverjum tíma verið að aðlaga starfið að breyttum aðstæðum, aðallega vegna stöðugrar fjölgunar. M.a. hefur verið fjölgað í stjórn klúbbsins, nú síðast kosin varastjórn til að mæta fjarveru aðalmanna í stjórn. Það hefur verið ljóst um tíma að ekki dvelja allir stjórnarmenn allan starfstíma klúbbsins á Spáni, þ.e.a.s. mánuðina október, nóvember og síðan febrúar, mars og apríl. Það var því nauðsynlegt að hafa varamenn til að hlaupa í skarðið. Varamenn eru ávallt boðaðir á stjórnarfundi svo að þeir geti fylgst með því sem er að gerast á vettvangi stjórnarinnar. Í stjórn klúbbsins sitja nú: Eyjólfur Sigurðsson, formaður, Grímur Valdimarsson, varaformaður, Örlygur Geirsson, gjaldkeri og meðstjórnendur Bergur Sigmundsson og Jóhannes Jónsson. Í varastjórn sitja Aðalsteinn H. Guðnason og Þuríður Jóhannsdóttir. Til stjórnarfunda er einnig boðaður skoðunarmaður klúbbsins Sigurður Ananíasson, formaður Mótanefndar Níels Karlsson og Símon Aðalsteinsson sem heldur utan um félagatal klúbbsins ásamt fleiru.

Fjölmennari Mótanefnd – Ákveðið var í byrjun starfsársins að fjölga í mótanefnd og hefur það reynst vel. Það er umfangsmikið starf að skipuleggja leikdag einu sinni í viku og hafa til staðar á golfvelli nokkra félaga sem taka að sér margvísleg verkefni á staðnum. Eftirtaldir voru skipaðir í Mótanefnd fyrir starfsárið 2018: Níels Karlsson, formaður og auk hans, Bergsveinn Símonarson sem sér um skráningu þátttakenda í leikdögum, Sigrún Magnúsdóttir, Hermann Bragason, Símon Aðalsteinsson, Sigurður Ananíasson og Magni Jóhannsson. Sú ákvörðun að fjölga í nefndinni hefur reynst vel, og hefur tekist vel að fylla í skörðin þar sem skipt hefur verið um mannskap.

Samningur við Vistabella-völlinn – Eins og fram hefur komið í Fréttabréfum klúbbsins náðust samningar í haust við Vistabella-völlinn fyrir starfsárið 2018. Það er ljóst ef tekið er tillit til þeirra hækkana sem orðið hafa á öðrum golfvöllum á svæðinu, þá er samningurinn mjög hagstæður. Völlurinn hefur stækkað í 18 holu golfvöll og er hinn nýji hluti vallarins glæsilegur og gjörbreytir öllu skipulagi vallarins til hins betra. Það heyrast enn raddir að völlurinn sé erfiður, of margir ,,bönkerar‘‘ og því erfitt fyrir suma að ná góðu skori. – Það verður hinsvegar að vera öllum ljóst að ef gengið verður til samninga við annan völl eða velli, þá hækka vallargjöldin verulega, mjög líklega allt að 50%. – Það er ástæða fyrir forustu klúbbsins að kanna hvort vilji er fyrir því á meðal félaga að greiða hærri teiggjöld á leikdögum og hafa þar með tækifæri til að spila á öðrum völlum. Það er líka möguleiki á að athuga að spila á Vistabella-vellinum aðra hvora viku og reyna að ná samningum um hina vikuna á öðrum velli. Við erum með samning við Vistabella-völlinn út þetta ár, en ef vilji er fyrir hendi um breytingar á næsta starfsári, 2019 þá þarf fljótlega að hefja undirbúning að því. – Eins og skýrt var frá í síðustu skýrslu þá hafði okkur borist til eyrna að nýjir fjárfestar hefðu tekið yfir okkar gamla heimavöll, Peraleja og þeir stefndu í það að reyna að opna hann að nýju í haust. Það er skemmst frá því að segja að ekkert virðist vera að gerast á þeim vettvangi, en við fylgjumst með.

Fjölgun félaga og þátttaka gesta – Á síðasta aðalfundi var ákveðið að hafa óbreyttan félagakvóta fyrir starfsárið 2018, 80 félaga. Ljóst er að fjöldi manna vill ganga til liðs við klúbbinn og við verðum með einhverjum hætti að bregðast við því. Fjölgun íslendinga á okkar svæði hér á Spáni er ótrúlega mikil. Daglega heyrist af því að landar okkar séu að fjárfesta hér á svæðinu, sem þýðir að fleiri vilja slást í hópinn. Aldrei hafa fleiri gestir spilað með okkur á leikdögum, og er það staðfesting á áhuga á þátttöku. Biðlistinn hjá okkur lengist og við verðum að taka á því í haust. Minnst hefur verið á að klúbburinn standi fyrir tveimur skipulögðum leikdögum í hverri viku, en það kallar á gjörbreytt skipulag og mjög umfangsmikla vinnu. Gleymum því ekki að allt okkar starf er unnið af sjálfboðliðum. Nokkur hópur félaga hefur undanfarið sniðgengið leikdaga klúbbsins og stofnað til hópa sem leika á öðrum völlum, jafnvel á leikdögum Teigs. Við því er lítið að gera, annað enn að meta stöðuna á ný og fjölga í stað þeirra sem vilja ekki taka þátt í okkar starfi. – Að gefnu tilefni ákvað stjórn klúbbsins að enginn gæti leikið í nafni klúbbsins utan skipulagðra leikdaga án þess að framvísa félagsskírteini Teigs. Gestir sem leika með klúbbnum á leikdögum njóta sömu kjara og félagar að viðbættu gestagjaldi sem er 5€.

Þátttaka í leikdögum og mótum Teigs – Ljóst er að á þessu starfsári munu félagar og gestir okkar leika um 1300 golfhringi á leikdögum og öðrum mótum á vegum klúbbsins. Þetta er gýfurlegur fjöldi, þegar tekið er tillit til þess að allt starf er unnið af sjálfboðaliðum. Litli golfklúbburinn sem hafði rúma tuttugu félaga í lok fyrsta starfsárs fyrir tæpum átta árum er nú að breytast í þróttmikinn og vel skipulagðan golfklúbb þar sem fjöldi fólks nýtur þess að spila saman golf og mindast hafa traust vinasambönd milli margra félaga. Það verður að segja að þetta er allt framar öllum vonum. Við vorum hikandi, tókum hvert skref varlega og reyndum að fara ekki lengra í einu en að við réðum vel við umgjörðina á hverjum tíma. Þetta hefur tekist þokkalega. Hafi komið upp vandamál þá hefur vanalega leist úr þeim án eftirkasta.

Á golfvellinum – Það er með okkar klúbb eins og alla aðra golfklúbba að félagarnir eru misjafnir að getu í golfinu. Það á líka við um þekkingu á grundvallar leikreglum í golfi. Reglurnar eru fyrir hendi en því miður eru margir sem gera enga tilraun til að kynna sér þær. Klúbburinn hefur af og til gefið út dreyfibréf sem skýra allra helstu reglur til að auðvelda félögum leikinn á vellinum. Eitt af grundvallar skilyrðum fyrir þátttöku í þessari vinsælu íþrótt er að vera heiðarleg/ur í leik. Það verður aldrei þannig að allar reglur séu ljósar öllum þátttakendum, en það er mikið atriði að þeir sem eru að reyna að leiðbeina fullyrði ekkert nema það sé byggt á staðreyndum. Okkur öllum verða á mistök, og það er ekkert athugavert við að það sé leiðrétt, en ekki með fullyrðingum um eitthvað sem ekki stenst. Vafamál koma upp út á velli og þau má leysa í lok leiks hverju sinni með því að leggja málið fyrir sérfræðinga sem betur fer eru í Mótanefnd klúbbsins. Röng talning, röng aðferð við að leysa úr stöðu þar sem bolti er utan brautar o.fl. o.fl. getur leitt til rangrar niðurstöðu í móti og er það óásættanlegt.

Vormót – Sumarmót – Haustmót – Eins og kunnugt er þá stendur Golfklúbburinn Teigur fyrir þremur mótum auk fastra leikdaga í fimm mánuði. Vormót og Haustmót hafa farið fram á Marina-golfvellinum í Mojacar og verið mjög vinsæl. Auk þess að leika golf er dvalið 3 nætur á hóteli, haldinn Vorfundur á vorin og Aðalfundur á haustin. Aðsókn er mikil bæði af félögum og mökum þeirra og einnig gestum sem vilja vera með og njóta þess lága verðs sem klúbburinn hefur samið um. Þátttaka í þessari Vorferð er tæplega 80 manns, þar af 51 í golfi. Nú er svo komið að ástæða er til þess að breyta reglum um þátttöku gesta. Það hefur skapast töluverð vinna í kringum skráða gesti, þeir hafa afpantað á síðustu stundu og stundum tekið of langan tíma að innheimta ferðakostnaðinn. Stjórn Teigs ákvað á síðasta stjórnarfundi að setja ramma utan um þátttökurétt gesta í Vor- og Haustferðum. Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða: ,,Klúbbfélögum er heimilt að taka með sér gesti í Vor- og Haustferðir Golfklúbbsins Teigs – Klúbbfélagar skulu tilkynna sérstaklega þátttöku gesta. Þeir bera fulla ábyrgð á greiðslum vegna þátttöku gesta sinna. Greiðslur vegna þátttöku félaga og gesta fer að öllu jafnan fram á leikdögum og skal vera lokið u.þ.b. hálfum mánuði fyrir tiltekna ferð.‘‘ – Sumarmót 2017 fór fram í Borgarfirði sl. sumar. Þátttaka í golfinu var ásættanleg, en ljóst að færri komu til leiks vegna mikils kostnaðar við gistingu og sameiginlegan kvöldverð. Stjórn kúbbsins ræddi stöðuna sl. haust og ákvað að næsta sumar, 2018, yrði reynt að breyta umgjörðinni og halda eins dags mót í stað tveggja. Ákveðið var að leita eftir við golfvelli í nágrenni Reykjavíkursvæðisins hvort hægt væri að semja um eins dags mót og kvöldverð. Klúbbnum barst tilboð frá Golfklúbbi Sandgerðis með milligöngu félaga okkar Aðalsteins Guðnasonar, um að Sumarmótið yrði haldið á þeirra velli. Tilboðið hljóðaði upp á Golf og Grill kr. 5000,- per mann. Fyrir þá sem ekki taka þátt í golfinu en vilja taka þátt í grillinu er kostnaðurinn kr. 3000,- per mann. Stjórn Teigs ákvað að taka framkomnu tilboði. Nánari tilhögun mótsins verður tilkynnt í Fréttabréfi í júní n.k.

Vefsíða Teigs – Eins og frá var skírt í Fréttabréfum Teigs, bauðst félagi okkar Sigurjón Sindrason til þess að gefa klúbbnum ,,lén‘‘ fyrir vefsíðu sem rekin yrði í nafni klúbbsins. Sigurjón hóf undirbúning sl. haust og í framhaldi af því hafa félagarnir Níels Karlsson og Símon Aðalsteinsson einnig komið að frumgerð síðunnar. Væntanlega verður vefsíðan tilbúin og komin á netið með haustinu, en þar verður vonandi hægt að nálgast allar helstu upplýsingar um starf Teigs á hverjum tíma.

Lokaorð – Þegar ég lít yfir þessi tæpu átta ár sem Teigur hefur starfað, og hugleiði um leið hvernig þetta allt gerðist, þá er ekki spurning í mínum huga að samheldni þeirra sem tóku að sér forustuna þessi ár hefur skilað þessum árangri. Aldrei hefur komið upp neinn ágreiningur í þessu starfi, eining og fórnfýsi hefur verið alsráðandi og vonandi verður það áfram. Þetta á ekki eingöngu um þá sem hafa formlega tekið við hlutverki í starfi klúbbsins, heldur almennt um félagana. Þeir hafa ætíð verið tilbúnir að grípa inn í ef eftir því hefur verið óskað. Á stofnfundi klúbbsins í febrúar 2011 lofaði ég að taka að mér formennsku í klúbbnum þar til í nóvember það ár – rita Starfsreglur klúbbsins og undirbúa þær tillögur sem nauðsynlegt var að leggja fram á fyrsta aðalfundi klúbbsins. Í haust verða starfsárin orðin 8 og kominn tími til þess að ég dragi mig í hlé. Ég ætlaði að vera hættur fyrir nokkru en það tókst ekki. Nú verður ekki undan komist ég hætti í haust. Ég læt þetta uppi í þessari skýrslu svo félagar geti rætt og undirbúið að annar félagi taki við formennsku. Starfsárinu líkur á aðalfundi í haust og enn eru allmargar uppákomur áður en því starfi lýkur. En þegar sá tími kemur er ástæða fyrir mig að draga úr vinnu á tölvuna en snúa mér frekar að því að bæta getuna í golfinu. –

El Valle 13. apríl 2018

F. H. stjórnar Teigs

Eyjólfur Sigurðsson, formaður

Leave a Reply