Golfklúbburinn Teigur – FRÉTTABRÉF

Golfklúbburinn Teigur – FRÉTTABRÉF

Leikdagur: Þriðjudagurinn 6. febrúar 2018.

Golfvöllur: Vistabella-völlur – Vallargjöld 41€ (innif. golfbíll)

Mætt til leiks: Bergsveinn Símonarson, Hermann Bragason, Níels Karlsson, Bergur M. Sigurðsson, Jóhannes Jónsson, Ásta K. Jónsdóttir, Emelía Gústafsdóttir, Gíslunn Loftsdóttir, Laila Ingvarsdóttir, Eyjólfur Sigurðsson, Magnús G. Pálsson, Ólafur Ingi Friðriksson, Pétur Gíslason, Sigrún B. Magnúsdóttir, Sigurður Ananíasson, Skarphéðinn Sigursteinsson, Elínborg Kristjánsdóttir, Guðbjörg A. Guðfinnsdóttir, Jenny Johansen, Þuríður Jóhannsdóttir, Ágúst Ögmundsson, Guðmundur Agnarsson, Magni Jóhannsson, Símon Aðalsteinsson og fjórir gestir.

Veður: Líklega gengur nú yfir okkar hluta af Spáni kaldasta vika vetrarins. Þegar við mættum til leiks var hiti 6° en fór í 12° þegar kom fram yfir hádegi. En það er nú vetur ef einhver hefur gleymt því.

Golfið: Það er óhætt að segja að golfið fór að mestu í vaskinn. Þegar mætt var til leiks var ljóst að ekki væri hægt að nota golfbíla á nýjasta hluta vallarins vegna þess að rigning síðustu daga hafði haft mikil áhrif á nýju brautirnar og þær myndu liggja undir skemmdum ef golfbílum yrði hleypt á þær. Við vonuðum að hægt væri að fara ,,milli leið‘‘, þ.e.a.s. að golfbílar mættu fara göturnar, en ekki inn á brautir, en því var hafnað. Vallarstarfsmenn byggðu það á því að þeir hefðu reynt að fara þá leið, en því miður hefðu golfara brotið það loforð og skemmdir væru á nokkrum stöðum. Það verður að segjast að skiljanlega vilja forráðamenn vallarins koma í veg fyrir að svona lagað gerist. Þetta setti allt í uppnám hjá okkur og var ákveðið að ekki yrði formlegt mót þennan dag. Þeir sem væru tilbúnir að ganga 9 holur og fá síðan golfbíl fyrir seinni 9 gætu gert það. Þá var boðið upp á að spila aðeins seinni 9 holurnar með golfbíl. Margir ákváðu að ganga og nokkrir að fara aðeins 9 holur og aðrir hættu við allt saman. Það verður þó að segjast að flestir félagar okkar tóku þessu vel og skildu að þetta ástand varð ekki við ráðið.

Hvað er næst? – Ég ræddi við framkvæmdastjóra vallarins um ástandið og við hverju mætti búast á næstunni. Hann sagði að ef ekki rigndi í vikunni þá myndi nýjasti hluti vallarins verða opnaður fyrir golfbíla næsta sunnudag. Ef það rigndi og golfbílar yrðu ekki notaðir á brautum, þá á að ræða stöðuna að nýju um helgina og sjá hvort nokkrum bílum á okkar vegum verður hleypt á vegina meðfram brautunum. Við mun upplýsa um ástandið um helgina.

Vorferðin til Mojacar – Gengið hefur verið frá samningum við Hotel Oasis Tropical og Marina Golf fyrir ferðina dagana 16. – 19. apríl. Við höfum að venju allt að því ótakmarkað gistipláss, en eins og áður takmörkun á golfvellinum. Við höfum tryggt okkur golf og golfbíla fyrr 56 golfara. Verð fyrir gistingu (tveggja manna herbergi) og hálft fæði, ásamt dinner á strandar veitingahúsinu sem við höfum verið á áður og bus, er 200€ fyrir tvo. Fyrir einstakling (eins manns herbergi) 150€. – Eyjólfur Sigurðsson sér um skráningu. Vinsamlega sendið pantanir á eyjsig@simnet.is Félagar í Teigi hafa forgang í golfið til 15. mars, eftir það bókum við gesti í golf í þeirri röð sem þeirra pöntun berst. Gestir sem þurfa eingöngu gistingu verða skráðir strax og beiðni berst.

Næsti leikdagur – Næsta þriðjudag 13. febrúar verður næsti leikdagur klúbbsins. Skráningar þurfa að berast til Þuríðar Jóhannsdóttur borgarnes@gmail.com fyrir fimmtudagskvöld, Gestir verða ekki skráðir fyrr en eftir þann tíma.

El Valle 6. febrúar 2018

Eyjólfur Sigurðsson, formaður

Leave a Reply