Fréttabréf febrúar 2022
Golfklúbburinn Teigur
Fréttabréf
Febrúar 2022
Nýtt golfár 2022
Skipulögð vikuleg golfmót hófust í byrjun mánaðar og hefur aðsókn verið góð. Nú er aftur farið að spila á þriðjudögum eins og gert var frá upphafi klúbbsins þar til á síðasta ári. Þessari breytingu hefur verið vel tekið. Samkvæmt upplýsingum frá félögum þá eru margir að búa sig til ferðar til Spánar eða eru þegar komnir á staðinn. Hindranir sem settar voru á ferðalög eru nú afnumdar í stuttum skrefum bæði hér heima og erlendis.
Þegar fyrrverandi stjórn gekk frá samningum um leikdaga og fjölda ráshópa fyrir þetta starfsár, 2022, þá var nokkur óvissa um hvernig ástandið yrði á þessu ári, þar sem ekki var séð fyrir um áhrif Covid 19. Þegar að nú opnast allar gáttir er óvíst að fjöldi ráshópa sem samið hefur verið um muni nægja þ.e.a.s. í febrúar og byrjun mars. Félagar verða að sætta sig við þessa stöðu. Stjórn klúbbsins mun hins vegar gera allt sem mögulegt er til þess að fjölga rástímum.
Skráning í golf
Breyting hefur orðið á skráningu fyrir þátttöku í golfi á þriðjudögum. Nú er ekki hægt að skrá langt fram í tímann. Skráning fyrir næsta leikdag hefst á miðvikudegi og lýkur á föstudegi. Skráning gesta kemur aðeins til greina þegar ljóst er hversu margir félagar hafa skráð sig fyrir lok skráningartíma. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu klúbbsins.
Vorferð til Mojacar
Náðst hafa samningar við hótel og golfvöll í Mojacar. Ferðin verður dagana 21. til 24. apríl. Hótelið sem samið hefur verið við er HOTEL MARINA PLAYA og er í göngufæri frá golfvellinum (Marina Golf). Þetta Hótel er við hliðina á því hóteli sem klúbburinn hefur notað í gegnum árin. Það tók nokkurn tíma að fá tilboð frá Hótelinu, þar sem flest hótel í nágrenni golfvallarins hafa ekki verið opin í Covid faraldrinum. Á þessum árstíma hafa aðallega eldri spænskir borgarar sótt þessi hótel, en faraldurinn hefur stöðvað öll ferðalög eldri borgara á þetta svæði. Nú er þetta allt að breytast.
Eftirfarandi verðtilboð hefur verið samþykkt af stjórn klúbbsins:
Verðskrá: – (Innifalið er morgunverður og kvöldverður í þrjá daga.)
Tveggja manna herbergi með golfi og golfbíl er €220 per mann.
Fyrir eins manns herbergi með golfi og golfbíl er €280.
Fyrir þá sem ekki taka þátt í golfi en vilja sömu aðstöðu á hótelinu € 150 per mann
Fyrir eins manns herbergi á sömu forsendum er verðið € 200.
Skráning þátttöku hefst 1. mars.
Sumarmót 2022
Félagi okkar Halldór Ingvason hefur að frumkvæði stjórnar tryggt okkur leikdag á Grindavíkurvelli 23. júní. Þátttökugjald er kr. 8.500- og er kvöldverður innifalinn.
Þegar ég sit hér við gluggann heima í Hafnarfirði og horfi til Bláfjallanna, snjór er yfir öllu og á sama tíma er veðurfræðingur að lýsa því yfir í útvarpinu að ekki séu fleiri stormar væntanlegir í þessari viku þá spyr maður sjálfan sig hvað er maður að gera hér. – Við komum í næstu viku áður en næstu stormar skella á landinu okkar kalda.
Eyjólfur Sigurðsson, formaður Teigs