Fréttabréf

Fréttabréf

Golfklúbburinn Teigur

 Fréttabréf

Desember 2021

Stjórn Teigs hefur ákveðið að hefja að nýju útgáfu fréttabréfa sem send verða til allra félaga á e-mail. Þetta er gert í þeirri von að fleiri verði upplýstir um starf klúbbsins á hverjum tíma.

Eins og kom fram á síðasta aðalfundi klúbbsins í Mojacar þá hefur starfið verið slitrótt vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa af Covid 19. Þessi pest hefur skapað ótrúlegustu vandamál á heimsvísu. Þetta hefur orðið til þess að margir okkar félaga hafa dregið úr ferðalögum, ekki síst vegan áskorana heilbrigðisyfirvalda bæði á Íslandi og Spáni.

Starfið gekk þó þokkalega í haust, þátttaka í vikulegum mótum var ágæt og mikil þátttaka í ferðinni til Mojacar.

Aðalfundur

Að venju var haldinn aðalfundur klúbbsins í Mojacar. Þar var farið yfir störf klúbbsins og rætt um stöðuna. Töluverður umræður urðu á fundinum. Það er ljóst af þeirri umræðu að mikill hugur er hjá félögum um að styrkja klúbbinn sinn, þó ekki séu allir sammála um hvaða leiðir á að velja.

Aðal umræðan var um stærð klúbbsins, en við teljum nú 100 félaga og tugir eru á biðlista. Þær raddir heyrast að við eigum að opna klúbbinn fyrir fleirum en aðrir telja að rétt sé að halda sig við þá tölu sem við höfum  náð. Frekari fjölgun mundi krefjast grundvallar breytinga á öllu starfi klúbbsins. Það er töluverð vinna að halda klúbbnum gangandi í þeirri stærð sem hann er. Allt starf er unnið af sjálfboðaliðum og eins og þeir vita sem hafa gengt þeim störfum þá er það þegar mjög umfangsmikið. Það er ekki framkvæmanlegt að fjölga verulega í klúbbnum án gjörbreytts skipulags. Niðurstaða fundarins varð sú að halda sig við óbreyttan félagafjölda.

Þátttaka og félagsgjöld

Aðalfundur samþykkti óbreytt félagsgjöld – 35€ per félaga. Eindagi félagsgjalda er 31. desember 2021. Allir þeir sem eiga óuppgert félagsgjald 1. janúar 2022 verða settir á aukafélagaskrá. Vilji þeir gerast félagar síðar verða þeir að vera á biðlista þar til að þeim kemur. Þeir þurfa þó ekki að greiða inntökugjald ef þeir verða samþykktir. Það er engin ástæða fyrir félaga sem ekki taka þátt í  störfum klúbbsins að standa í vegi fyrir þátttöku annarra.

Samningar við Vistabella

Fyrri stjórn hafði fengið drög að samningi fyrir starfsárið 2022 frá Vistabella vellinum. Þau drög hafa nú verið staðfest  af nýrri stjórn. Sem betur fer þá verður leikið á þriðjudögum eins og verið hafði frá upphafi, en datt niður á síðasta ári. – Nú þegar hefur verið haft samband við Vistabella vegna starfsársins 2023 og hefjast samningar í apríl.

Þátttaka eldri félaga

Eins og kunnugt er þá var klúbburinn stofnaður af nokkrum eldri borgurum sem höfðu áhuga fyrir að spila golf reglulega í góðra vina hópi. Sumir þessara félaga sem en eru virkir hafa óskað eftir að það verði athugað hvort ekki sé hægt að spila 9 holur á leikdögum  í stað 18. Núverandi stjórn mun athuga hvort hægt er að koma því við.

Vorferð

Stjórn klúbbsins vinnur að því að skipuleggja vorferð klúbbfélaga. Við höfum oftast farið til Mojacar og verið almenn ánægja með það. Það sem hefur breyst er að það hotel sem við höfum lengstum átt viðskipti við hefur verið lokað og því varð að leita annað. Hótelið sem dvalið var á í þessari ferð var út af fyrir sig ásættanlegt en í all nokkurri fjarlægð frá golfvellinum. Einnig var það miður að veitingastaðurinn sem var á efri hæð golfskálans var lokaður og því enginn samanstaður á vellinum að loknu golfi. – Það sem veldur nú orðið mestum áhyggjum af golfinu í Mojacar er völlurinn sjálfur og golfbílarnir. Eins og áður hefur komið fram þá er nokkur hópur félaganna kominn á aldur og er völlurinn orðin nokkrum erfiður fyrir þá.  – Stjórn klúbbsins hefur verið að kanna aðra möguleika en það hefur ekki gengið. Ef að allt hefði verið eðlilegt þá hefði verð gengið frá vorferð 2022 sl. vor, samningar um hotel og golfvöll þurfa að gerast með eins til tveggja ára fyrirvara. Við höfum það í huga fyrir næstu ár. Hvert verður haldið í vor verður upplýst strax eftir áramót.

Skráning fyrir leikdaga

Nokkrir hnökrar hafa verið á skráningu félaga í golf á vegum klúbbsins. Kerfið sem við höfum notað hefur ekki reynst okkur vel. Athugun á endurbótum er hafin og sjá nokkrir félagar um að reyna að leysa það vandamál. Niðurstöðu er að vænta á næstu vikum.

Vefsíða Teigs

Stjórn klúbbsins ræddi um vefsíðuna á síðasta fundi. Voru stjórnarmenn sammála um að það þyrfti að koma því efni sem á að birta á síðunni í fastan farveg. Ákveðið var að ritstjóri síðunnar yrði félagi okkar Níels Karlsson. Frá og með áramótum skal allt efni sem óskað er eftir að birt verði á síðunni sent til hans.

Að lokum

Það fer ekki á milli mála að það var skynsamleg ákvörðun að stofna Golfklúbbinn Teig fyrir rúmum 10 árum síðan. Klúbburinn hefur sannað gildi sitt, gefið félögum ótaldar gleðistundir og gerir það væntanlega áfram. Það góða við golfið er að aldur er oftast afstætt hugtak í þeirri íþrótt, fólk spilar golf fram á grafarbakkann og sumir hafa gefið upp andann á vellinum. Gólfið getur einnig lengt lífið, hreyfingin og góður félagsskapur er ómissandi á efri árum. – Séra Hjálmar, fyrrv. Dómkirkjuprestur sagði nýlega við útför vinar míns og mikils golfara: ,,þegar ég var ungur maður og var að byrja að leika golf, sagði reyndur golfari við mig – golfið er einfalt, það eru notaðar tvær kúlur, önnur er 4 cm í þvermál hin er 14000 km í þvermál og þú átt að reyna að hitta þá minni.”

Gleðileg jól, þakka samstarfið á liðnum árum, sjáumst heil á nýju ári.

Eyjólfur Sigurðsson, formaður Teigs

Comments are closed.