Saga Teigs

Saga Teigs

Stutt ágrip af sögu Teigs

Golfklúbburinn Teigur er stofnaður í byrjun febrúar 2011. Nokkrir félagar konur og karlar sem dvöldu á Costa Blanca ströndinni höfðu í nokkurn tíma spilað saman golf. Þau ásamt fjölda annarra íslendinga dvelja hluta vetrar á Spáni og ekkert er ánægjulegra en að spila golf á glæsilegum völlum í veðurblíðunni á suður ströndum. Það var þá þegar ljóst að þörf fyrir golfklúbb var fyrir hendi og því var ákveðið af þessum fámenna en samheldna hópi að leggja drög að stofnun formlegs golfklúbbs.

Fyrsta árið var farið varlega af stað og ákveðið að leggja drög að starfsreglum og frekari umgjörð um starfið. Ákveðið að stefna að formlegum fundi í nóvember, samþykkja starfsreglur og kjósa klúbbnum stjórn. Þetta gekk eftir og síðan höfum við unnið að framgangi klúbbsins á markvissan hátt. Strax í upphafi var ákveðið að takmarka fjölda félaga, taka eitt skref í einu og tryggja klúbbnum örugga umgjörð. Síðan hefur félagakvótanum verið breytt til fjölgunar í markvissum skrefum og telur klúbburinn nú 80 félaga og er biðlisti eftir þátttöku. Ástæðan fyrir félagafjöldanum byggist á því að aldrei séum við fleiri en að auðveldlega verði ráðið við starfið af félögunum sjálfum.

Við hófum að spila á La Tercia-vellinum, 9 holu velli sem reyndist okkur vel í upphafi. Því miður gekk rekstur vallarins ekki sem skildi og lagðist hann af fyrir nokkrum árum. Við höfum leikið á nokkrum völlum með ágætum árangri en nú er heimavöllur Teigs, Vistabella-völlurinn sem nú nýverið var breytt í 18 holur. Við leggjum áherslu á að útvega félögum okkur bestu kjör hverju sinni, bæði á skipulögðum leikdögum klúbbsins og eins þegar félagarnir og gestir þeirra spila á vellinum á öðrum tímum. Við spilum alla þriðjudaga í október, nóvember og febrúar, mars og apríl. Við förum í golfferðir bæði vor og haust og höfum tryggt okkar félögum mjög hagstæða samninga um gistingu og golf á þeim stöðum sem við dveljum.

Margir félaganna eru komnir á eftirlaunaaldur, þau hafi valið það lífsmunstur að dvelja heima á Íslandi á sumrum en á Spáni á vetrum. Það hefur oft verið sagt og er rétt að spila golf er gott fyrir líkama og sál, ekki síst þegar fólk er komið á efri ár. Það er því eitt af markmiðum klúbbsins að félagarnir geti ekki aðeins iðkað golf, heldur ekki síst að mynda vinahóp og skapa félagslega samheldni fyrir okkar fólk.