Starfsskýrsla

Starfsskýrsla

Golfklúbburinn Teigur

 Starfsskýrsla

nóvember 2021 – apríl 2022


Tilgangur og markmið –
Fyrir 11 árum síðan þegar 8 manna hópur eldri íslendinga sem dvelja að staðaldri á Spáni tók þá ákvörðun að stofna golfklúbb, reyndist það gæfuspor. Mjög fljótt eftir að það spurðist út að þessi starfsemi væri hafin óskuðu margir eftir þátttöku. Við ákváðum að fara varlega í fjölgun, taka lítil skref í einu en reyna heldur að mynda samheldan hóp þar sem allir stæðu saman. Við tókum skrefin þannig, að fjölga um 10-15 á ári, og settum strax í reglur klúbbsins að allar ákvarðanir um fjölgun væru teknar á aðalfundi. Við lögðum mikið upp úr félagslega þætti starfsins, að félagar kynntust og að vinskapur myndaðist innan hópsins. Staðreyndin er sú að flestir okkar félagar eru komnir á efri ár og þá er vinskapur og samstaða mikils virði. Klúbburinn skipulagði hádegisverði að loknu golfi einu sinni í mánuði og líkaði félögum það vel.

Fjölgun félaga – Flestir félagar hafa verið sammála um að fara varlega í fjölgun, enda kallar fjölgun á meiri vinnu og jafnvel fleiri leikdaga ef allir eiga að komast að. Umræða hefur farið fram í klúbbnum um að greiða laun fyrir einstök störf í klúbbnum, sem mundi þýða allt annað starfsumhverfi og breyta stöðu klúbbsins lagalega hér á Spáni. Launagreiðslur kalla á allt annað umhverfi ef fara á eftir þeim reglum sem gilda hér. – Það er hinsvegar hvimleitt að horfa á nokkurn fjölda áhugasamra golfara vera stöðugt á biðlista að bíða eftir félagsaðild. Á sama tíma er um 30 manna hópur sem greiðir gjöld en tekur ekki þátt í starfi klúbbsins.

Aukafélagaskrá – Fyrir hendi er samþykkt á vegum klúbbsins sem hefur ekki verið framfylgt en kemur vel til greina að virkja. Samþykktin fjallar um að hægt sé að setja þá félaga á aukafélagaskrá sem ekki eru virkir í golfinu. Ef þeir vilja hefja þátttöku á ný, þá verða þeir að óska eftir þátttöku og fá aðgang þegar röðin kemur að þeim. Þeir þurfa hins vegar ekki að greiða inntökugjald að nýju. Ef þessari samþykkt yrði framfylgt myndi það gefa allmörgum af þeim sem eru á biðlista þátttökurétt sem er sanngirnismál.

Aðrir golfhópar – Nú hefur það gerst að aðrir hópar íslenskra golfara hafa hafið starfsemi og er ekkert við því að segja. Þessir hópar kalla sig ,,golfklúbba’’ en eru ekki reknir samkvæmt venjulegu skipulagi golfklúbba, þeir eru reknir sem einkafyrirtæki. – Þessir hópar létta á þrýstingi á félagsaðild í okkar klúbb og er ekkert annað en gott um það að segja. Við höldum okkar striki

Samningar við Vistabella – Fljótlega eftir síðasta aðalfund var farið fram á við Vistabella-völlinn að hefja viðræður um keppnisdaga og rástíma fyrir árið 2023. Mikið atriði að koma þeim samningum í höfn þar sem alltof margir hnökrar höfðu verið á samningum tvö síðustu ár. Það hafði reynst klúbbnum dýrt fjárhagslega og auk þess hafði verið flökt á rástímum sem olli nokkrum vandræðum. Um leið og Vistabella völlurinn var reiðubúinn til viðræðna var hafist handa. Mótanefnd setist niður og setti upp áætlaðan fjölda rástíma sem klúbburinn vildi gjarnan fá fyrir starfsárið 2023 og viðræður gátu hafist. Það kom strax í ljós að mikið álag er á völlinn, fimm stórir hópar sóttust eftir fjölda rástíma. Að lokum var ákveðið að ganga til samninga um að við spiluðum á mánudögum, í staðinn fengum við þann fjölda rástíma sem við óskuðum eftir, og að fyrsti rástími á leikdögum yrði alltaf kl. 10.00 á morgnana.

Sameiginlegur kvöldverður – Eins og áður hefur verið nefnt í þessari skýrslu, er hinn félagslegi þáttur starfsins mjög mikilvægur. Þegar ráshópar eru orðnir 8-10, þá er langur tími sem líður á milli þess að fyrsti hópur fer út og sá síðasti kemur í hús. Þetta veldur því að margir félagar eru farnir af vettvangi þegar kemur að tilkynningu úrslita og afhendingu verðlauna og þar með kemur brestur í hinn félagslega þátt starfsins. – Til að bregðast við þessu ákvað stjórn klúbbsins að boða til sameiginlegs kvöldverðar á veitingastaðnum Hong Kong, um 6o manns sóttu fagnaðinn og var almenn ánægja með frumkvæðið. Það er ljóst að framhald verður á þessu strax í haust.

Golfbolir fyrir alla félaga – Stjórn klúbbsins ákvað fyrir stuttu að láta framleiða golfboli fyrir alla félaga og greiða kostnaðinn úr sjóðum klúbbsins. Allir, konur og karlar verða í golfbol í sama lit og bera merki klúbbsins. Fyrstu bolirnir verða afhentir hér í Mojacar. Stefnt er að því að allir félagar hafi fengið bol þegar við hefjum leik í haust.

Vefsíða – Fréttabréf – Um síðustu áramót tók félagi okkar Níels við vefsíðu klúbbsins og sér hann nú um að birta það sem talið er að eigi erindi til félaga. Þá var aftur ráðist í það að gefa út Fréttabréf sem formaður klúbbsins sér um, er það sent til allra félaga og einnig birt á vefsíðunni. Náið samband við félaga með stöðugum upplýsingum er mjög mikilvægt og eflir starf klúbbsins.

Sumarmót Teigs – verður haldið í Grindavík 24. júní. Félagi okkar Halldór Ingvason hefur séð um samninga við Golfklúbb Grindavíkur. Haldið verður eins dags mót og siðan sameiginlegur kvöldverður að loknu golfi. Verðið er 8.500- kr. per mann (golf og kvöldverður).

Lokaorð – Þrátt fyrir risjótt veður í óvenju langan tíma hér á Spáni þá verður ekki annað sagt en að lífið hafi verið dásamlegt á marga vegu í vetur. Við náðum að spila golf flesta leikdaga og er það vel.  Það er góð aðferð til að sætta sig við rigningu hér, er að fylgjast með veðurfréttum frá Íslandi. Bændur hér á Suður Spáni eru alveg undrandi þegar við eða aðrir gestir kvörtum undan veðrinu, því þeir elska vætuna, þeirra framleiðsla á ökrunum verður meiri og betri ef næg vökvun er fyrir hendi. Við skulum hafa það í huga að við erum gestir í þessu landi og megum þakka fyrir þær vikur og mánuði sem við getum dvalið hér. Sérstaklega er nauðsynlegt að muna það þegar við sjáum hvað er að gerast í Norður Evrópu og víða annarsstaðar í veröldinni.

Gleðilegt sumar.

F.h. stjórnar Teigs

Eyjólfur Sigurðsson, formaður

Comments are closed.